Knattspyrna: FHL dróst á móti FH

Lið FHL úr næst efstu deild kvenna í knattspyrnu dróst á móti efstu deildarliði FH í 16 liða liða úrslitum bikarkeppninnar. FHL komst þangað með að vinna Einherja frá Vopnafirði í leik á Akureyri. Íslandsmótið byrjar svo hjá FHL um helgina.

„Draumurinn okkar var að fá heimaleik þar sem við höfum spilað tvo útileiki. FH liðið er mjög öflugt og þetta verður því krefjandi verkefni,“ segir Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari FHL. Dregið var í hádeginu í dag en spilað eftir tíu daga.

Liðið lagði Völsung í fyrstu umferð keppninnar en vann síðan Einherja 0-5 á miðvikudag. Þótt Einherji ætti heimaleik var spilað á Akureyri.

„Völlurinn á Vopnafirði er ekki tilbúinn auk þess sem þjálfar Einherja (Víglundur Páll Einarsson) var staddur á fæðingardeildinni á Akureyri. Við samþykktum því fyrir vin okkar að spila þar,“ segir Björgvin Karl.

Nóg af færum í seinni hálfleik


Markalaust var í leikhléi en eftir það skoraði Samantha Smith tvisvar og þær Katrín Edda Jónsdóttir, Selena Salas og Emma Hawkins sitt markið hver. „Við fengum þokkaleg færi í fyrri hálfleik en nýttum þau ekki. Í seini hálfleik þrýstum við liðinu og sköpuðum fullt af færum. Þótt við höfum skorað fimm mörk var markvörðurinn þeirra trúlega besti maður leiksins.

Það sýndi sig þegar á leið að þær hafa takmarkaða aðstöðu til æfinga því það dró mjög af þeim. Í fyrri hálfleiknum voru þær fínar með góðar varnarfærslur. Ég hef trú á og vona að þeim gangi vel í annarri deildinni í sumar,“ segir Björgvin Karl um leikinn.

Góður andi með nýjum leikmönnum


Talsverðar breytingar hafa orðið á FHL liðinu. Halldóra Birta Sigfúsdóttir er hætt vegna meiðsla og þær Elísabet Gunnlaugsdóttir, Jóhanna Lind Stefánsdóttir og Ólöf Rún Rúnarsdóttir dregið sig í hlé. Natalie Cooke og Sofia Lewis héldu báðar til Portúgal og spila þar í efstu deild.

Sex erlendir leikmenn eru komnir í staðinn, þar á meðal Samantha og Emma, sem farið hafa mjög vel af stað í sínum fyrstu leikjum. Deja Sandoval styrkir vörn og miðju en þær þrjár koma frá Banaríkjunum. Selena og Laia Lopez koma frá Spáni og Írinn Keelan Terrell verður í markinu.

„Þær eru mjög skemmtilegir karakterar sem hafa lyft öllum upp hjá okkur. Þær komu til okkar þegar við vorum í æfingaferð á Spáni og síðan höfum við ekki tapað leik. Síðan erum við með unga leikmenn sem eru að stíga upp og standa sig þokkalega.“

Stefna á efri helming deildarinnar


Fyrsti deildarleikurinn verður á móti Selfossi á sunnudag. Búast má við erfiðum leik því Selfoss var í úrvalsdeildinni í fyrra. Það hefur oft verið með austfirskar stelpur í liðinu en Magdalena Reimus mun vera sú eina slíka þar núna.

„Mér líst mjög vel á sumarið út frá þeim hópi sem við höfum. Við eigum að geta spilað virkilega skemmtilegan bolta og fækkað mörkunum sem við fáum á okkur. Við spiluðum oft vel í fyrra en fengum á okkur klaufamörk.

Við viljum vera í efri hluta deildarinnar og er spáð rétt ofan við miðju. Við yrðum sátt við að vera í 4. - 5. sæti. Auðvitað viljum við alltaf komast hærra en til þess þarf mjög margt að ganga upp, helst strax á sunnudag.“

Um helgina hefst einnig keppni í annarri deild karla. KFA tekur þar á móti Þrótti Vogum í Fjarðabyggðarhöllinni en Höttur/Huginn leikur gegn Haukum í Hafnarfirði.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.